top of page

Jörðin Bustarfell er fornt höfuðból og ein stærsta jörð í Vopnafirði.
Frá árinu 1532 hefur sama ættin búið á Bustarfelli en þá festi Árni Brandsson
kaup á jörðinni. Þar var sýslumannssetur um skeið á 16. og 17. öld.

Eins og aðrir torfbæir hefur bærinn á Bustarfelli tekið breytingum í tímans rás.
Elsti kjarni hans er frá því eftir bæjarbruna 1769 en stofa t.h. við bæjardyr er
frá miðbiki 19. aldar og baðstofu var breytt í núverandi mynd um 1880.
Þrjú eldhús eru í bænum og vitnar hvert þeirra um sinn samtíma:
Hlóðaeldhús er í miðjum bæ, kolaeldavél er í baðstofuhorni og nýja eldhúsið
var steypt upp árið 1944.

Árið 1943 seldi Methúsalem Methúsalemsson, þáverandi bóndi, íslenska
ríkinu bæinn til varðveislu um ókomin ár en frumkvæði að varðveislunni átti
Samband austfirskra kvenna árið 1939. Í varðveisluskyni varð það úr að
fjölskyldan bjó áfram í bænum eftir söluna og sýndi hann sem safnhús í
næstum 20 ár áður en þau fluttu í nýtt íbúðarhús árið 1966. Fjósið var lengst í notkun eða allt til ársins 1978.

Í torfbænum er starfrækt minjasafn. Stór hluti gripanna er kominn úr búi Methúsalems Methúsalemssonar (1889-1969) bónda á Bustarfelli en einnig er þarna að finna afrakstur af söfnun hans víðsvegar úr sveitarfélaginu. Árið 1982 var þetta einkasafn Methúsalems gert að sjálfseignarstofnun og kallað Minjasafnið á Bustarfelli og færði Elín Methúsalemsdóttir Vopnfirðingum það til varðveislu.

Bustarfell

bottom of page